Laugardagur, 24.3.2007
Samkvæmt dagatalinu er vorið framundan
Samkvæmt dagatalinu er vorið framundan, en þegar farið er yfir margvísleg veðrabrigði undanfarna daga þá mætti ætla annað.
Annars var það mikils metinn maður sem sagði að veðrið leitaði ætíð jafnvægis. Ef það kæmu slæmir dagar þá mundu koma góðir dagar á eftir, þannig að jafnvægi mundi ætíð myndast.
Ef það er raunin eigum við nokkuð góða daga inni sem ættu ekki að vera langt undan.
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið í gær föstudag þar sem aðalþungi umræðunnar snerist um verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga. Þar er um að ræða í meginatriðum þrjú verkefni sem eru: málefni fatlaðra, öldrunarmál og rekstur framhaldsskólanna. Samhljómur var meðal sveitarstjórnarmanna um að vilji væri fyrir að taka fyrrnefnda málaflokka yfir ef þeim myndi fylgja nægilegir tekjustofnar. Ef til þess kæmi mundu minni sveitarfélögin þurfa að fara í samstarf með þeim stærri.
Fór keyrandi suður á fimmtudaginn þar sem ekki var flogið, en komst með flugi heim í morgun.
Óvenjulega mikið hefur verið um lokanir milli Súðavíkur og Ísafjarðar vegna snjóflóða undanfarna daga og virðist sem hver einasta lokun hér á milli, ásamt upplýsingum um nær hvert einasta snjóflóð hafi ratað inn á mbl.is sem er í sjálfu sér sérstakt og óþarft að ég tel. Margir sem ekki til þekkja hér, telja að hér sé hætta á hverju strái og það sé bara tímaspursmál hvenær stórskaði hljótist af. Staðreyndin er bara sú að það er álíka mikil hætta fólgin í að taka þátt í umferðinni í Reykjavík og hér á Vestfjörðum og er áhættan hér minni ef eitthvað er.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 20.3.2007
Eru Vestfirðingar búnir að leggja árar í bát?
Í hinni miklu umræðu um atvinnu og byggðamál á Vestfjörðum er farið víða og hafa að sjálfsögðu allir sínar skoðanir á stöðunni og hvað sé hægt að gera. Finna má talsmenn fyrir því að Vestfirðingar séu sjálfir að tala sig út af kortinu og séu ekki tilbúnir að takast á við vandann eins og hann er. Í staðinn bíði Vestfirðingar eftir nokkrum ,,milljörðum" frá ríkisvaldinu til að laga stöðuna??
Vestfirðingar eru engan veginn búnir að leggja árar í bát. Það er mikið í gangi á Vestfjörðum sem vel er til þess fallið að efla byggð og bæta mannlíf á Vestfjörðum. Þeir sem búa á Vestfjörðum hafa valið að búa þar, því þar er mannlíf gott, þar er að finna fjölskylduvæn og öflug samfélög.
Má í raun segja að innra umhverfi okkar sé eins gott og best verður á kosið en svo kölluð ytri skilyrði vinna því miður ekki með okkur. Þar er um að ræða mikilvæga þætti eins og samgöngumál, fjarskiptamál og almennt erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Þættir sem eru í höndum ríkisstjórnar.
Byggðaþróunin sem er að eiga sér stað víða á landsbyggðinni er að finna víðast hvar í heiminum. Það er því langt frá því að um Vestfirskan vanda sé að ræða, eða að Vestfirðingar sjálfir hafi komið sér í þessa stöðu, vandinn er alþjóðlegur og mikilvægt að horfa á stöðuna út frá því.
Ráðamenn verða jafnframt að hafa í huga að ef þeir vilja hafa áhrif á þá byggðaröskun sem finna má á allri landsbyggðinni, þá verður að taka á vandanum af festu og að jöfnunaraðgerðir verða að hafa það að leiðarljósi að hafa jákvæð áhrif á alla landsbyggðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.3.2007 kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18.3.2007
Aðferðirnar til að snúa áralangri byggðaþróun við í höndum ríkisstjórnarinnar
bb.is fjallaði um málið og var svar mitt um málið eftirfarandi:
Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að órói sé í sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum vegna stofnunar hinnar svokölluðu Vestfjarðanefndar. Hann segir vandann í búsetu- og atvinnumálum á Vestfjörðum alls ekki nýjan af nálinni og telur litlar líkur á að aðgerða megi vænta af hálfu stjórnvalda fyrir kosningar í vor og segist ekki telja að ráðamenn séu reiðubúnir til að takast á við málið af þeirri festu sem þarf til að snúa mjög langri þróun við. Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum á þriðjudag byggðavandann á Vestfjörðum. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði þar erfitt að benda á lausn á byggðavandanum, en sagði niðurstöðuna í bili vera þá að stofna vinnuhóp um málið.
Fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum fóru á fund ríkisstjórnarinnar í byrjun febrúar og kynntu þar tillögur um úrlausnir fyrir atvinnu- og byggðamál á svæðinu. Ómar segir að það hafa verið mjög raunhæfar tillögur sem hefðu það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á atvinnu- og byggðamál hér og hann hefði viljað sjá ríkisstjórnina sjálfa fara í þá vinnu sem nefndinni er ætlað að gera.
Þó að ég hafi mikla trú á þeim aðilum sem hafa verið valdir í nefndina, þá er það útkoman eftir meðhöndlun ráðamanna sem skiptir öllu máli og ég leyfi mér að efast um að þær niðurstöður muni hafa nægilega mikið vægi til að snúa þeirri þróun við sem verið hefur, segir Ómar.
Ómar segir jafnframt ekki rétt að tala um stöðuna eingöngu í tengslum við Ísafjörð, vandinn sé mun víðtækari en það. Í raun má sjá sambærilega þróun víða á jaðarsvæðum, ekki bara hér á landi heldur í Evrópu og í raun er sambærilega þróun að finna víða í heiminum. Sú aðferðafræði sem beitt hefur verið undanfarin ár hér á landi til að sporna við byggðaröskun hefur því miður ekki gengið, það sjá það allir sem vilja sjá og því verður að leita annarra leiða.
Lausnir ráðamanna þurfa að virka hvort sem er á Raufarhöfn, Bíldudal eða Ísafirði og getur tækifæri þeirra til dæmis verið fólgið í því að finna nýjar leiðir til að snúa við þekkri byggðaröskun með aðferðum sem ekki hafa verið reyndar áður, eins og skattaívilnunum ýmiskonar og beita þeim á jaðarsvæðum á landinu öllu sem eiga undir högg að sækja. Mögulegt væri að stilla verkefninu upp sem evrópsku tilraunaverkefni og leita eftir fjármagni t.d. hjá Evrópusambandinu.
Aðferðafræðin yrði að leiða til þess að fyrirtæki, fjárfestar og fjölskyldur sæju sér mun meiri hag af því að staðsetja sig á landsbyggðinni en verið hefur til þessa. Ef við fyndum meðulin sem duga til að snúa áralangri byggðarsökun við mætti í mörgum tilfellum heimfæra það upp á önnur jaðarsvæði annars staðar og því gæti verið mikil verðmæti fólgin í slíkri þekkingu og reynslu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.3.2007 kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10.3.2007
Komin heim aftur...
Jæja, nú erum við komin heim í heiðardalinn aftur. Ferðin heim hófst frá bænum Frankston um kl. 12:00 sl. þriðjudag. Þá var ekið norður, upp eftir til Melbourne og þaðan á flugvöllinn. Um kl. 17:20 að áströlskum tíma sama dag var flogið af stað áleiðis til London. Um miðnætti, að áströlskum tíma var millilent í Singapore og stoppað þar í um klukkustund. Síðan var stefnan sett á Heathrow flugvöll og var þar lent um kl. 05:00 á GMT tíma eftir tæpa 23 rauntíma ferðalag frá Melbourne. Ferðin gekk vel og stytti það stundirnar að geta horft á allar nýjustu bíómyndirnar í afþreyingarkerfinu sem Qantas flugfélagið bíður upp á, á leiðinni.
Verð að viðurkenna það að ég gerði mikil mistök með að panta heimflug með Iceland Express þar sem Iceland Express lendir á Standsted flugvelli en Qantas flugfélagið notar Heathrow flugvöll. Flugið heim frá Stansted var áætlað um kl. 11:30 og því höfðum við um 6.5 klst til að koma okkur af Heathrow flugvelli út á Stansted flugvöll, en þar á milli er dágóður spotti.
Við fyrstu sýn virtist það góður tími, að hafa 6,5 klst til að koma sér á milli flugvalla. En staðreyndin var sú að við vorum með um 70 kg af farangri í fimm töskum sem þurfti að að fara með á milli flugvalla og til að gera það þurfti að taka þrjár járnbrautarlestir og það var þó nokkur gangur á milli lestarbrautarstöðvanna... Því mæli ég ekki með því að reyna að spara einhverjar krónur með að velja Iceland Express ef ætlunin er að fljúga áfram frá Heathrow flugvelli, veljið þá frekar Flugleiðir sem skilar ykkur á sömu flugstöð og tekur ykkur áfram á næsta áfangastað þó svo að það kosti aðeins meira.
Það voru þreyttir ferðalangar sem skiluðu sér eftir 3,5 klst. ferðalag frá Heathrow flugvelli á Stansted flugvöll. Flugið til Íslands gekk vel, sofið var mest alla leiðina og lent á miðvikudegi um kl. 15:00 á Keflavíkurflugvelli að íslenskum tíma, afskaplega fegin því að vera komin heim þó svo að veðrið heima á Íslandi væri ekkert til að hrópa húrra fyrir. Á föstudagsmorgni var síðan stefna sett landleiðis vestur á firði sem tók okkur um 6. klst að keyra.
Afskaplega er nú gott að vera komin heim aftur....
Ferðalög | Breytt 22.3.2007 kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5.3.2007
Gist í miðborg Melbourne
Áttum bókaðar tvær nætur í miðborg Melbourne. Þar var gist aðfaranótt laugardags og sunnudags. Á föstudagskvöld fór Ester í afmæli til vinkonu sinnar sem býr í miðborg Melbourne og ákváðum við Laufey að taka það rólega um kvöldið, fórum að vísu út að borða, borðuðum úti við stóra verslunar- og veitingagötu og nutum frábærrar þjónustu og góðs mats. Ekki amalegt að rölta um götur borgarinnar að kvöldlagi í um 24 gráðu hita sem er mjög mátulegur kvöldhiti.
Á laugardagskvöldið fórum við út að borða með frænda Ester, Antony. Hann er á leiðinni í 12 mánaða heimsreisu og hefur mikin áhuga á að koma til Íslands í þeirri ferð sinni.
Seinna um kvöldið var farið aftur í Crown spilavítið til að ,,ná til baka" því sem við skildum þar eftir í síðustu viku en þá urðu þar eftir um 3.000 íslenskar krónur.
Eftir að hafa þvælst þar í um klukkustund en spilað í um 15 mínútur þá fórum við heim með um kr. 15.000 í vasanum og má því segja að 3.500 krónurnar sem ,,lagðar voru inn" í vikunni áður hafi ávaxtað sig þokkalega þann tíma sem þær voru þar :) Það er auðvelt að vilja halda áfram þegar vel gengur, en sjaldnast hefst eitthvað upp úr því annað en léttari budda...
Ferðalög | Breytt 22.3.2007 kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 5.3.2007
Ekið eftir Great Ocen Road
Jæja, nú hefur verið þó nokkur þvælingur á okkur síðustu daga.
Eftir að við fórum úr íbúðinni í Dromana, fórum með ferju til Queenscliff sem tók um 45 min. og þaðan var keyrt norður eftir vesturströnd Ástralíu, á Great Ocen Road. Umhverfið meðfram veginum er eitt af undrum veraldar og ekki var verra að fá frábært veður, sól og blíðu.
Gistum aðfaranótt fimmtudags í Apollo Bay, í litlum bæ á Great Ocen road. Þar búa um 1.000 manns að staðaldri en á ferðamannatímanum tvöfaldast ef ekki þrefaldast fjöldinn sem þar er. Staðurinn er virkilega fallegur og veðursæll. Fórum út að borða um kvöldið með Ester og vini hennar sem býr þar og áttum við mjög skemmtilega stund saman. Á eftir var síðan farið á Ástralskan bar þar sem var spjallað saman fram eftir nóttu.
Daginn eftir var síðan haldið áfram eftir Great Ocen Road. Eftir um 1,5 klst akstur komum við að mjög merkilegum stað, á íslensku er staðurinn kallaður ,,12 postular" en þar standa eða stóðu 12 mjög háir stólpar upp úr sjónum við ströndina sem verður að telja mikið listaverk náttúrunnar. Eftir að öldur hafa barið reglulega á þessum háu stólpum standa nú aðeins átta þeirra eftir sem sjást vel af landi. (sjá myndir). Til að sjá þá alla er boðið upp á stuttar flugferðir í þyrlu þar sem mögulegt var að skoða tindanna, einnig það sem eftir er að þeim fjórum sem hafa nánast horfið síðustu ár. Þetta er talin einn af undrum Ástralíu og er gífurlegur fjöldi ferðamanna sem fara þangað allt árið um kring.
Í framhaldi var ekið áleiðis til Melbourne þar sem ætlunin var að gista í tvær nætur.
Þetta eru svona ,,eftir á færslur" í dagbókinna, þar sem ekki er alltaf nettenging þar sem við erum.
Í Grillpartýinu heima hjá Mary og Graig í síðustu viku var boðið upp á íslenskt fóður, harðfisk, grafin lax með graflaxsósu o.fl. Það er styðst frá því að segja laxinn þótti flestum góður en aðra sögu er að segja af Vestfirska harðfiskinum. Þar voru nokkrir sem kunnu ekki að meta hann, þeir kunnu bara ekki gott að meta...
Ferðalög | Breytt 22.3.2007 kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4.3.2007
Loksins rigndi...
Það er ekki oft sem maður fagnar rigningunni þegar maður er í útlöndum. En í þetta skipti var það gert. Ástralar hafa liðið mikinn vatnskort undanfarið og rignir mun sjaldnar en gerði hér áður fyrr. Það hefur haft mjög slæm áhrif á landið þegar hitinn er frá 20 C til 45 C en síðast rigndi smávegis um miðjan janúar sl.
Landbúnaðurinn á sumum svæðum hefur verið í vandræðum, m.a. hefur þetta bitnað illa á mjólkurbúum.
Eftir því sem ég kemst næst þá er hægt er að fá ,,góða" landbúnaðarjörð með húsum og tækjum á sanngjörnu verði inni í landi víða í Ástalíu þessa daganna. Verð er lágt því engin leið er að geta sér til um hvort það rigni nógu mikið næstu ár til að jarðirnar verði gjöfular aftur. - tek þó fram að ég hef ekki í hyggju að gerast bóndi í Ástralíu...
Sl. þriðjudagskvöld byrjaði að rigna, rigndi alla nóttina og fram að hádegi næsta dag. Það var ekki annað hægt en að fagna með heimafólki.
Á sama tíma gerði úrhellisrigningu norðar í Ástralíu, m.a. í Sydney þar sem skapaðist ófremdarástand vegna mikillar vætu og hafa Sydney búar ekki upplifað annað eins í langan tíma.
Talað er um að það þurfi helst að rigna hér samfellt í tvær vikur svo landið jafni sig eftir þurrka síðastliðin ár.
Heima á Íslandi er beðið fyrir sól og sumaryl og minni rigningu allt árið um kring. í Ástralíu er beðið fyrir því að það rigni og það rigni helst samfellt í margar vikur...
Ferðalög | Breytt 22.3.2007 kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)