Þriðjudagur, 27.2.2007
Krókódíll varð fyrir valinu
Nú er þriðjudagsmorgun hér í Ástralíu sem þýðir að það er mánudagskvöld heima á Íslandi. Við höfum farið út að borða með Ester flest kvöld, þar sem við höfum prófað eitt og annað af matseðlunum. Höfum m.a. farið á Ítalskan, indverskan og austurlenskan veitingastað, höfum farið í ástralskt grillpartý og í gærkvöldi var ákveðið að fara á ástralskt veitingahús.
Þar var valið af matseðli, þríréttað sem var: krókódíll, kengúra og fuglakjöt, af svipuðum fugli og strúti. Eftir að við höfðum gætt okkur á herlegheitunum vorum við sammála um að krókódílakjötið væri síst. Kom mér á óvart að krókódílakjöt er hvítt á lit og jafnframt frekar seigt. Fuglakjötið var í lagi, en kengúrukjötið bar af þessum þremur tegundum.
Kengúrukjöt er blóðmikið, rautt og var það borið fram meðalsteikt. Erfitt er að líka kengúrukjötinu við kjöt sem við þekkjum en til að bera það saman við eitthvað þá væri það helst líkt íslenska lambakjötinu hvað bragð varðar, en kengúrukjöt er þó mun blóðmeira.
Nú, þegar þetta er skrifað er ferðin okkar hálfnuð hér í Ástralíu, en við fljúgum heim til Íslands nk. þriðjudag, eftir viku. Á fimmtudaginn skilum við íbúðinni sem við höfum haft á leigu frá því við komum og þá liggur leiðin okkar til Great ocen road. Til að komast þangað þurfum að keyra suður til Sorrento og þaðan tökum við ferju yfir til Queenscliff.
Eftir að hafa þvælst um á Great ocen road í tvö daga eins og áætlað er liggur leiðin til Melbourne aftur þar sem við munum gista í tvo daga og gera borginni enn betur skil.
Læt þetta duga að sinni, kveðja frá down under...
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 22.3.2007 kl. 13:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.