Þriðjudagur, 20.3.2007
Eru Vestfirðingar búnir að leggja árar í bát?
Í hinni miklu umræðu um atvinnu og byggðamál á Vestfjörðum er farið víða og hafa að sjálfsögðu allir sínar skoðanir á stöðunni og hvað sé hægt að gera. Finna má talsmenn fyrir því að Vestfirðingar séu sjálfir að tala sig út af kortinu og séu ekki tilbúnir að takast á við vandann eins og hann er. Í staðinn bíði Vestfirðingar eftir nokkrum ,,milljörðum" frá ríkisvaldinu til að laga stöðuna??
Vestfirðingar eru engan veginn búnir að leggja árar í bát. Það er mikið í gangi á Vestfjörðum sem vel er til þess fallið að efla byggð og bæta mannlíf á Vestfjörðum. Þeir sem búa á Vestfjörðum hafa valið að búa þar, því þar er mannlíf gott, þar er að finna fjölskylduvæn og öflug samfélög.
Má í raun segja að innra umhverfi okkar sé eins gott og best verður á kosið en svo kölluð ytri skilyrði vinna því miður ekki með okkur. Þar er um að ræða mikilvæga þætti eins og samgöngumál, fjarskiptamál og almennt erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Þættir sem eru í höndum ríkisstjórnar.
Byggðaþróunin sem er að eiga sér stað víða á landsbyggðinni er að finna víðast hvar í heiminum. Það er því langt frá því að um Vestfirskan vanda sé að ræða, eða að Vestfirðingar sjálfir hafi komið sér í þessa stöðu, vandinn er alþjóðlegur og mikilvægt að horfa á stöðuna út frá því.
Ráðamenn verða jafnframt að hafa í huga að ef þeir vilja hafa áhrif á þá byggðaröskun sem finna má á allri landsbyggðinni, þá verður að taka á vandanum af festu og að jöfnunaraðgerðir verða að hafa það að leiðarljósi að hafa jákvæð áhrif á alla landsbyggðina.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 22.3.2007 kl. 13:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.