Mánudagur, 2.4.2007
Jákvætt í Súðavíkurhreppi
Töluverð umræða á sér stað um stöðu Vestfjarða út frá
byggða- og atvinnulegum þáttum séð og ekki er sú umræða að ástæðulausu.
Fjárhagsleg staða sveitarfélaga segir á margan hátt til um hvernig sveitarfélög eru í stakk búin til að takast á við framtíðina, veita íbúunum þá þjónustu sem skilyrt er auk annarar þjónustu sem sveitarfélögin kjósa að veita. Einnig þarf að vera til fjármagn til að framkvæma eðlilegar endurbætur, hrinda í framkvæmd verkefnum sem stuðla að styrkari byggð og efla rekstrarumhverfi fyrirtækja eins og kostur er hverju sinni.
Ársreikningar margra sveitarfélaga á landsbyggðinni sýna því miður ekki allt góða stöðu hvað fjárhagsafkomu varðar og hjá mörgum er það þannig að tímafrekustu verkefnin snúast um að láta enda ná saman og / eða hvar á draga úr þjónustu, hvar á að skera niður. Flest þessara sveitarfélaga eru á landsbyggðinni og er sannanlega ekki eingöngu um Vestfirsk sveitarfélög að ræða.
Sveitarfélög sem eiga við rekstrarlega erfiðleika að stríða eiga enn erfiðara með að glíma við þá byggðaröskun sem víða herjar á.
Skýringin á bágum ársreikningum sveitarfélaga er að miklu leyti vegna verkefnaflutninga frá ríki til sveitarfélaga þar sem ekki hefur fylgt nægt fjármagn með verkefnunum. Auk þess eru sveitarfélög að verða af útsvarstekjum íbúa sinna vegna mikillar fjölgunar einkahlutafélaga, en þær tekjur fara nú beint í ríkissjóð í formi fjármagnstekna. Auk þess hefur fækkun íbúa víða á landsbyggðinni haft sitt að segja um lægri tekjur sveitarfélaga.
Þó svo staða margra sveitarfélaga sé slæm er það ekki algilt. T.d. hefur Súðavíkurhreppur verið í hópi fárra sveitarfélaga á landsbyggðinni sem hefur skilað hagnaði sl. fjögur ár.
Rekstrarniðurstöður Súðavíkurhrepps sl. fjögurra ára, af A og B hluta samstæðunar eftir fjármagsntekjur/gjöld og eftir afskriftir hafa verið:
Árið 2002 + 9.8 millj. - , Árið 2003 + 3.7 millj., Árið 2004 + 1,3 millj., Árið 2005 + 14,0 millj.
Hagnaður þessara 4 ára eru samtals 28,8 millj. sem verður að teljast nokkuð gott hjá sveitarfélagi sem er með um 120 millj. krónur í heildartekjur á ári.
Þetta eru jákvæðar fréttir af fjárhag sveitarfélaga frá Vestfjörðum. Ef greint er betur inn í rekstrartölur ársreikninga Súðavíkurhrepps sl. ára má sjá að það er ekki eiginlegur rekstur sveitarfélagsins sem hefur skilað þessum árangri heldur er það fjármagnstekjum að þakka þar sem eigið fé sveitafélagsins hefur verið nokkuð hátt og ávaxtað sig vel.
Til að sem flest sveitarfélög séu vel í stakk búin til að takast á við framtíðina er það mjög mikilvægt að ríkið láti sveitarfélögunum í té vopn í baráttuni við svokallaða byggðaröskun, vopn sem er fólgið í leiðréttiningu á tekjustofnun sveitarfélaga.
Athugasemdir
Til hamingju með það Ómar
Herdís Sigurjónsdóttir, 2.4.2007 kl. 14:27
Gaman og gott að heyra Ómar. Svona fréttir eru nauðsynlegar í umræðuna.
Vestfirðir, 2.4.2007 kl. 19:25
Þetta er glæsilegt Ómar. Hvað er svo að frétta af heita vatninu ?
Skafti Elíasson, 11.4.2007 kl. 09:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.