Ævintýradalurinn!

Það var heimsókn í Ævintýradalinn í Heydal sem stóð upp úr því sem gert var um helgina.  Kvenfélagið Sunna úr fyrrum Reykjafjarðarhreppi, nú Súðavíkurhreppi hafði boðað þar til árlegs vorfagnaðar sl. laugardagskvöld.

Í Hestfirðinum á leiðinni í Heydal, stoppuðum við aðeins til að fylgjast með hrefnu sem var ekki langt frá landi sem í rólegheitunum syndi út fjörðinn og var það ekki amaleg sýn.  

Kvöldið í Heydal var eins gott og hægt var að hafa það.  Til að byrja með var boðið upp á kaffi og meðlæti,  m.a. kleinur, pönnukökur, flatkökur o.fl. góðgæti sem var bakað af kvenfélagskonunum. 

Eftir að hafa gætt sér á herlegheitunum var tombóla á vegum kvenfélagsins þar sem allir unnu, engin núll, allir miðar voru vinningar.  Flestir keyptu sér nokkra miða og myndaðst hálfgerð aðfangadagskvöldsstemming þegar pakkarnir voru opnaðir.   Ágóðinn af sölu miðanna síðan nýttur til góðra málefna eins og gert hefur verið til margra ára. 

Seinna  um kvöldið var síðan dansleikur þar sem Hjónabandið lék fyrir dansi.  Um morgunin beið síðan morgunverður þar sem m.a. fram var borið rjúkandi kaffi og nýbakað brauð af ýmsum gerðum.

Við heimsóttum Heydal síðast sumarið 2003, en þá voru framkvæmdir í  fullum gangi og var þá verið að breyta fjósinu í gistiherbergi og stóran samkomu- og veitingasal þar sem vorfagnaðurinn var haldinn nú. 

Það er ævintýri líkast að koma í veitingasalinn, sem áður var fjósið.  Allt sem þar er, er smekklega valið og er t.d. viðurinn, niðursöguð um 50 sm breið fura frá Léttlandi, ljósakrónan er heimagerð og er uppistaða hennar grænar gler netakúlur.  Mikið er af gömlum munum sem prýða veggi hússins og einnig stóð þar yfir myndlistasýning. 

Framkvæmdir eru enn í fullum gangi í Heydal, allt til þess gert að bjóða upp á meiri afþreyingu fyrir ferðamenn, m.a. er verið að útbúa sundlaug sem fyrirhugað er að taka í notkun fljótlega.

Það sem vekur einnig athygli við breytingarnar sem gerðar hafa verið á húsakosti í Heydal er hversu vel er vandað til verksins þar sem hagkvæmni er haft í fyrirrúmi og útsjónarsemi látin ráða för.

Í Heydal eru haldin árlega þorrablót, vorfagnaðir Sunnu og margir fleiri viðburðir.  Mikil verðmæti eru fólgin í að hafa slíkan ævintýrastað í rúmlega klukkustunda fjarlægð frá Súðavík.  Ekki skemmir fyrir að þeir sem koma í Heydal verða ekki fyrir vonbrigðum með þá gestristni sem þar er að finna.

Þeir sem ekki til þekkja þá er Heydalur innst í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Fjarlægð frá Súðavík er um 110 km og um 90 km frá Hólmavík.

Nokkuð víst er að það verður ekki svona langur tími í næstu heimsókn í Heydal hjá okkur og mæli ég eindregið með því að þeir sem eiga leið um djúpið að koma við í Heydal og verja þar tíma, til að skoða og njóta.

Myndir af vorfagnaðinum er að finna hér til hliðar þar sem aðalljósmyndari kvöldsins var Laufey Þ. Friðriksdóttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband