Aðferðirnar til að snúa áralangri byggðaþróun við í höndum ríkisstjórnarinnar

vestfirdirRíkisstjórnin hefur skipað nefnd til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Nefndin er skipuð í framhaldi af viðræðum fulltrúa sveitarfélaga á Vestfjörðum við ríkisstjórnina að undanförnu.
bb.is fjallaði um málið og var svar mitt um málið eftirfarandi:


Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að órói sé í sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum vegna stofnunar hinnar svokölluðu Vestfjarðanefndar. Hann segir vandann í búsetu- og atvinnumálum á Vestfjörðum alls ekki nýjan af nálinni og telur litlar líkur á að aðgerða megi vænta af hálfu stjórnvalda fyrir kosningar í vor og segist ekki telja að ráðamenn séu reiðubúnir til að takast á við málið af þeirri festu sem þarf til að snúa mjög langri þróun við. Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum á þriðjudag byggðavandann á Vestfjörðum. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði þar erfitt að benda á lausn á byggðavandanum, en sagði niðurstöðuna í bili vera þá að stofna vinnuhóp um málið.

Fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum fóru á fund ríkisstjórnarinnar í byrjun febrúar og kynntu þar tillögur um úrlausnir fyrir atvinnu- og byggðamál á svæðinu. Ómar segir að það hafa verið mjög raunhæfar tillögur sem hefðu það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á atvinnu- og byggðamál hér og hann hefði viljað sjá ríkisstjórnina sjálfa fara í þá vinnu sem nefndinni er ætlað að gera.

„Þó að ég hafi mikla trú á þeim aðilum sem hafa verið valdir í nefndina, þá er það útkoman eftir meðhöndlun ráðamanna sem skiptir öllu máli og ég leyfi mér að efast um að þær niðurstöður muni hafa nægilega mikið vægi til að snúa þeirri þróun við sem verið hefur,“ segir Ómar.

Ómar segir jafnframt ekki rétt að tala um stöðuna eingöngu í tengslum við Ísafjörð, vandinn sé mun víðtækari en það. „Í raun má sjá sambærilega þróun víða á jaðarsvæðum, ekki bara hér á landi heldur í Evrópu og í raun er sambærilega þróun að finna víða í heiminum. Sú aðferðafræði sem beitt hefur verið undanfarin ár hér á landi til að sporna við byggðaröskun hefur því miður ekki gengið, það sjá það allir sem vilja sjá og því verður að leita annarra leiða.

Lausnir ráðamanna þurfa að virka hvort sem er á Raufarhöfn, Bíldudal eða Ísafirði og getur tækifæri þeirra til dæmis verið fólgið í því að finna nýjar leiðir til að snúa við þekkri byggðaröskun með aðferðum sem ekki hafa verið reyndar áður, eins og skattaívilnunum ýmiskonar og beita þeim á jaðarsvæðum á landinu öllu sem eiga undir högg að sækja. Mögulegt væri að stilla verkefninu upp sem evrópsku tilraunaverkefni og leita eftir fjármagni t.d. hjá Evrópusambandinu.

Aðferðafræðin yrði að leiða til þess að fyrirtæki, fjárfestar og fjölskyldur sæju sér mun meiri hag af því að staðsetja sig á landsbyggðinni en verið hefur til þessa. Ef við fyndum meðulin sem duga til að snúa áralangri byggðarsökun við mætti í mörgum tilfellum heimfæra það upp á önnur jaðarsvæði annars staðar og því gæti verið mikil verðmæti fólgin í slíkri þekkingu og reynslu.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband