Samkvæmt dagatalinu er vorið framundan

sol

Samkvæmt dagatalinu er vorið framundan, en þegar farið er yfir margvísleg veðrabrigði undanfarna daga þá mætti ætla annað. 

Annars var það mikils metinn maður sem sagði að veðrið leitaði ætíð jafnvægis.  Ef það kæmu slæmir dagar þá mundu koma góðir dagar á eftir,  þannig að jafnvægi mundi ætíð myndast.
Ef það er raunin eigum við nokkuð góða daga inni sem ættu ekki að vera langt undan. 

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið í gær föstudag þar sem aðalþungi umræðunnar snerist um verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga.  Þar er um að ræða í meginatriðum þrjú verkefni sem eru: málefni fatlaðra, öldrunarmál og rekstur framhaldsskólanna.  Samhljómur var meðal sveitarstjórnarmanna um að vilji væri fyrir að taka fyrrnefnda málaflokka yfir ef þeim myndi fylgja nægilegir tekjustofnar. Ef til þess kæmi mundu minni sveitarfélögin þurfa að fara í samstarf með þeim stærri.

Fór keyrandi suður á fimmtudaginn þar sem ekki var flogið, en komst með flugi heim í morgun. 

Óvenjulega mikið hefur verið um lokanir milli Súðavíkur og Ísafjarðar vegna snjóflóða undanfarna daga og virðist sem hver einasta lokun hér á milli, ásamt upplýsingum um nær hvert einasta snjóflóð hafi ratað inn á mbl.is sem er í sjálfu sér sérstakt og óþarft að ég tel.  Margir sem ekki til þekkja hér, telja að hér sé hætta á hverju strái og það sé bara tímaspursmál hvenær stórskaði hljótist af.  Staðreyndin er bara sú að það er álíka mikil hætta fólgin í að taka þátt í umferðinni í Reykjavík og hér á Vestfjörðum og er áhættan hér minni ef eitthvað er.  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já var með ykkur í anda á þinginu í gær, það er spurning hvernig þessi mál þróast. Við vitum jú alveg að nærþjónustan batnar til muna við  það að flytja hana til sveitarfélaganna, en því verður þá bæði að fylgja fjármagn og litlu sveitarfélögin að hafa getu til að framkvæma.

Ég er sammála þér með að ekki eigi að halda uppi hasarfréttaflutningi, en datt samt sjálf í snjóflóðagírinn í gær og skrifaði eina bloggfærslu um málið til að koma þessi úr systeminu.

kveðja úr Mosfellsbænum.

Herdís Sigurjónsdóttir, 24.3.2007 kl. 15:10

2 identicon

Já þetta er spurning um hvort þið Súvíkingar hafið verið nógu dulegir að agitera fyrir göngum... eða við Ísfirðingar þar sem þetta er jú okkar leið til rvk.  Hvað er svo að frétta af heita vatninu í súðavík ?

kær kveðja Skafti

Skafti Elíasson (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 17:25

3 Smámynd: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir

Ég bíð með óþreyju eftir vori með sól í haga og blómstur í tún.

Ég er sammála þér um að þessi umfjöllun af snjóflóðum hér og þar og allstaðar sé komin út í öfgar.

Ég ber þá von í brjósti að Súðvíkingar fái jarðgöng eins og Bolvíkingar svo ég geti skotist til þín í kaffi, kæri frændi, hvenær sem er og við hvaða skilyrði sem er.

Kveðja

Víkarinn, vertinn og frænkan

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 24.3.2007 kl. 20:01

4 identicon

Ég þakka kærlega commentin.

Ég tel Herdís að samvinna sé af hinu góða milli sveitarfélaga, samanber samvinnu sveitarfélaga hér, t.d. með sameiginlega barnaverndarnefnd, almannavarnarnefnd og fl, og það á að vera hægt að þróa samvinnu milli sveitarfélaga um margvísleg málefni ef viljinn er fyrir hendi.  

Sveitarfélög á norðanverðum Vestfjörðum hafa verið að álykta um göng milli Súðavíkur og Ísafjarðar nýlega, en það verður að segjast eins og er, að umræðan um göng á milli þessara tveggja staða er mjög ný af nálinni.  Hér þurfa að koma göng á milli og ég tek undir það að við þurfum að fara í þá umræðu af mun meiri þunga heldur en verið hefur til þessa. 

Og Ragna gaman að fylgjast með þér og því sem þú ert að gera í Víkinni.  Nú læt ég verða að því um næstu helgi að koma í kaffi til þín

Ómar Már Jónsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband