Það er kraftur í Kofra!

kofri-finÉg hef lifað og leikið mér undir fjallstindinum Kofra frá því að ég man eftir mér, dáðst af honum úr fjarlægð,  - en aldrei gengið á Kofra..Blush

Ég hef farið upp að Kofra á snjósleða og notið útsýnisins með allt snævi þakið... en eftir að hafa gengið á Kofra er það bara ekki samanburðarhæft...Smile

Var í fyrsta skipti í gær að sækja Kofratind heim gangandi.  Fórum ég og Sigga Ranný systir og tók ferðin upp á efsta hluta Kofratinds tæpa 2 tíma.  

Væri það ekki í frásögur færandi, nema að Sigga var að fara upp á Kofra í þriðja skiptið á fjórum dögum.  

Picture 175

Ekki var hægt að kvarta yfir veðrinu, logn og heiðskýr himinn og veðrið því eins og best verður á kosið.  

Kofri hefur fengið mikið af heimsóknum síðustu vikur og það er margt merkilegt þar að sjá og neðangreindur texti úr Íslenskum þjóðsögum ,,meikar sens" eftir förina. 

Nokkrir hafa tekið með sér minjagrip sem sagt er að búi mikill kraftur í... svo mikill að sumir hafa hreinlega sett þá undir koddann hjá sér og segja það hafa mikil áhrif.

 

 

Eftirfarandi texta um Kofra er að finna í Íslenskum þjóðsögum eftir Jón Árnason:Picture 163

,,Þrír staðir hafa verið þekktastir á Íslandi fyrir náttúrusteina. Einn þessara staða er Kofri, en það er einstakur og hár fjallstindur upp úr öðrum lægri fjallgarði í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Þar skal safna náttúrusteinum, einkum á Jónsmessunótt, við tjörn þá sem er uppi á tindinum. Þar er sagt að finnist bæði óskasteinar og aðrir fáséðir hlutir. Óskasteinn heitir svo af því að hvers sem maður óskar sér þegar maður hefur hann fær maður ósk sína uppfyllta.
Hella ein, sem sumir segja að sé hol að innan, er í Kofra og getur af sér hvers konar náttúru á Jónsmessunótt. Sú hella heitir Steinamóðir."

                                    Íslenskar þjóðsögur og ævintýri
                                                        Jón Árnason

 Hvernig verða steinarnir til?

Steinamóðir
Þess er getið í þjóðsögum að til
séu hellusteinar sem geti af sér aðra steina og hafi menn þannig komist fyrir upptök grjótsins og er þar miðað við hina lifandi náttúru, samanber selamóður, flyðrumóður o.fl.
                Íslenskar þjóðsögur og sagnir
                    Sigfús Sigfússon

 

Myndirnar segja allt sem segja þarf, fleiri í myndasafninu.


Fjárfesting sem loksins borgaði sig!

 alftafjordur

Eftir síðustu helgi má segja að snjósleðinn sem keyptur var fyrir um fjórum árum hafi loksins skilað sínu, fjárfestingin hefur þannig sannað ágæti sitt. 

Þó svo margir pirri sig yfir snjó og kulda, þá er fátt eitt skemmtilegra en að bruna um fjöll og fyrndindi á snjósleða í góðum félagsskap.  

Helgin byrjaði strax með góðu veðri og fínu snjósleðafæri.  Tíminn var nýttur vel, farið þrisvar sinnum upp að Kofratindi, fyrst í sex manna hóp á fjórum sleðum, þá í þriggja manna hópi á þremur sleðum og síðast með átta ára dóttur mína í góðum hópi ferðafélaga.

 

 

Það verður að teljast til forrréttinda að geta á 20 mínútum verið kominn upp á hálendi og gefið sér þar tíma til að njóta ,,milljón dollara" útsýnis, horfa á fjallagarðana speglast í spegilsléttu djúpinu, þar sem að lognið er ráðandi og sólin glampar í djúpbláum haffletinum...

Það er á slíkum stundum gott að renna yfir í huganum þá kosti sem fylgja því að búa á landsbyggðinni og með þeim ókostum sem telja má til, en við það að horfa út spegilslétt og friðsælt djúpið, þá verða ókostirnir ansi lítilvægir. 

 

 

 

alda

Rjúpnaveiðitímabilið er hafið! - hvar skal veiða?

rjupa

Rjúpnaveiðitímabilið  hófst í dag 1. nóv. og stendur til 30. nóv. nk.   

Ekki er lengur gefið að áhugasamir geti yfir höfuð farið á rjúpu.  Það er hreinlega orðið erfitt fyrir hinn almenna veiðimann. 

Jú, til þess að það sé mögulegt þarf annað hvort að eiga jörð, vera starfsmaður hjá fyrirtæki sem leigir rjúpnaveiðiland eða þekkja góðan bónda. 

Það er semsagt ekki lengur þannig að áhugasamar rjúpnaskyttur, smelli sér út í bíl með hólkinn í  annarri og skotbelti í hinni, keyri smávegis og rölti svo út í óvissuna til að skjóta rjúpu í jólamatinn.  

Nokkur símtöl hafa komið inn á skrifstofu Súðavíkurhrepps undanfarna daga þar sem verið er að fá upplýsingar um hvort Súðavíkurhreppur eigi land sem hægt sé að fá leyfi til að skjóta rjúpu á.  Því miður er Súðavíkurhreppur ekki í þeirri aðstöðu þar sem sveitarfélagið er ekki eigandi að slíkum rjúpnaveiðilöndum.  

Að vísu hefur almenningur getað veitt í botni Álftafjarðar til margra ára á mjög góðu rjúpnalandi án þess að verið sé að amast út af því.  Vonandi verður það svoleiðis áfram.


,,Leggja áherslu á forvarnir"?

flaska

Sérkennileg staða er komin upp. 

Frumvarp liggur fyrir, þar sem lagt er til að sala á léttu áfengi verði gefin frjáls og í staðinn verði lögð aukin áhersla á ,,forvarnir".

Þessi ummæli lét heilbrigðisráðherra falla í dag, en heilbrigðisráðherra er jafnframt stuðningsmaður frumvarpsins. 

Nú er engin í betri aðstöðu en ráðherra til að sjá afleiðingar áfengisneyslu hjá vaxandi hópi einstaklinga og eru forsvarsaðilar SÁÁ reglulega að óska eftir auknu fjármagni frá hinu opinbera með misgóðum árangri til að standa undir rekstrarkostnaði deilda til að sinna þeim sem misst hafa tökin.  Þetta ætti  heilbrigðisráðherra að vera mjög meðvitaður um. 

Niðurstöður fjölmargra rannsókna sem gerðar hafa verið á áfengisneyslu og vandamálum því tengt sýna allar að ein besta forvörnin er takmarkað aðgengi að áfengi.....

Því er ráðherra í mjög sérkennilegri stöðu...

Hann vil bæta forvarnir á sama tíma og hann vill gera að engu eina þekktustu forvörn sem til er gegn áfengisvanda...  - Nú eru góð ráð dýr.

Ef frumvarpið skildi nú ná fram að ganga má ætla að heilbrigðisráðherra hljóti að stórauka fjárframlög til SÁÁ og gera þeim þannig mögulegt að taka við þeirri aukningu sem mundi verða vegna stóraukins aðgengis að áfengi. 

Það hlýtur bara að vera...... 

 


Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum?

Umræðan um mögulega olíuhreinsistöð á Vestfjörðum fer ekki hátt og vekur athygli hversu fáir040307refinery þingmenn og ráðherrar  tjá sig um  þær hugleiðingar sem óhjákvæmilega leita á þegar verið er að máta slíkt stórvirki inn í Vestfirskt atvinnulíf.   Lítil umræða ráðamanna þjóðarinnar vekur athygli sérstaklega í ljósi stöðunar sem Vestfirðir eru í.

Umræða um mögulega olíuhreinsistöð á ekki að vera neitt feimnismál og á að fá málefnalega og opna umræðu um mögulega kosti og galla af því að staðsetja olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. 

Mikil umræða um svokallaðar mótvægisaðgerðir vegna stöðu atvinnumála á Vestfjörðum eiga sér stað þessa stundina, þar sem sitt sýnist hverjum og  þar hefur ekki farið mikið fyrir umræðu um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. 

Í fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum ætti að vera pláss fyrir þátttöku ríkisins í að vinna með Vestfirðingum að undirbúningi þess að taka megi ákvörðun innan eins skamms tíma og mögulegt er  um hvort forsendur séu til þess að staðsetja olíuhreinsistöð á Vestfjörðum eða ekki.

Samhliða því verður að spyrja, hvort við trúum því að hægt sé með öðrum hætti að snúa við þeirri byggðaröskun sem átt hefur sér stað til margra ára þ.e. með svokölluðum mótvægisaðgerðum sem núna eru inni í myndinni? 

Þar eru margar ágætistillögur sem betrumbæta stöðuna, en ljóst er að þær einar og sér fela ekki í sér viðsnúning byggða- og atvinnumála á Vestfjörðum.  


Ævintýradalurinn!

Það var heimsókn í Ævintýradalinn í Heydal sem stóð upp úr því sem gert var um helgina.  Kvenfélagið Sunna úr fyrrum Reykjafjarðarhreppi, nú Súðavíkurhreppi hafði boðað þar til árlegs vorfagnaðar sl. laugardagskvöld.

Í Hestfirðinum á leiðinni í Heydal, stoppuðum við aðeins til að fylgjast með hrefnu sem var ekki langt frá landi sem í rólegheitunum syndi út fjörðinn og var það ekki amaleg sýn.  

Kvöldið í Heydal var eins gott og hægt var að hafa það.  Til að byrja með var boðið upp á kaffi og meðlæti,  m.a. kleinur, pönnukökur, flatkökur o.fl. góðgæti sem var bakað af kvenfélagskonunum. 

Eftir að hafa gætt sér á herlegheitunum var tombóla á vegum kvenfélagsins þar sem allir unnu, engin núll, allir miðar voru vinningar.  Flestir keyptu sér nokkra miða og myndaðst hálfgerð aðfangadagskvöldsstemming þegar pakkarnir voru opnaðir.   Ágóðinn af sölu miðanna síðan nýttur til góðra málefna eins og gert hefur verið til margra ára. 

Seinna  um kvöldið var síðan dansleikur þar sem Hjónabandið lék fyrir dansi.  Um morgunin beið síðan morgunverður þar sem m.a. fram var borið rjúkandi kaffi og nýbakað brauð af ýmsum gerðum.

Við heimsóttum Heydal síðast sumarið 2003, en þá voru framkvæmdir í  fullum gangi og var þá verið að breyta fjósinu í gistiherbergi og stóran samkomu- og veitingasal þar sem vorfagnaðurinn var haldinn nú. 

Það er ævintýri líkast að koma í veitingasalinn, sem áður var fjósið.  Allt sem þar er, er smekklega valið og er t.d. viðurinn, niðursöguð um 50 sm breið fura frá Léttlandi, ljósakrónan er heimagerð og er uppistaða hennar grænar gler netakúlur.  Mikið er af gömlum munum sem prýða veggi hússins og einnig stóð þar yfir myndlistasýning. 

Framkvæmdir eru enn í fullum gangi í Heydal, allt til þess gert að bjóða upp á meiri afþreyingu fyrir ferðamenn, m.a. er verið að útbúa sundlaug sem fyrirhugað er að taka í notkun fljótlega.

Það sem vekur einnig athygli við breytingarnar sem gerðar hafa verið á húsakosti í Heydal er hversu vel er vandað til verksins þar sem hagkvæmni er haft í fyrirrúmi og útsjónarsemi látin ráða för.

Í Heydal eru haldin árlega þorrablót, vorfagnaðir Sunnu og margir fleiri viðburðir.  Mikil verðmæti eru fólgin í að hafa slíkan ævintýrastað í rúmlega klukkustunda fjarlægð frá Súðavík.  Ekki skemmir fyrir að þeir sem koma í Heydal verða ekki fyrir vonbrigðum með þá gestristni sem þar er að finna.

Þeir sem ekki til þekkja þá er Heydalur innst í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Fjarlægð frá Súðavík er um 110 km og um 90 km frá Hólmavík.

Nokkuð víst er að það verður ekki svona langur tími í næstu heimsókn í Heydal hjá okkur og mæli ég eindregið með því að þeir sem eiga leið um djúpið að koma við í Heydal og verja þar tíma, til að skoða og njóta.

Myndir af vorfagnaðinum er að finna hér til hliðar þar sem aðalljósmyndari kvöldsins var Laufey Þ. Friðriksdóttir.


Jákvætt í Súðavíkurhreppi

Töluverð umræða á sér stað um stöðu Vestfjarða út frá sudavik
byggða- og atvinnulegum þáttum séð og ekki er sú umræða að ástæðulausu. 

Fjárhagsleg staða sveitarfélaga segir á margan hátt til um hvernig sveitarfélög eru í stakk búin til að takast á við framtíðina, veita íbúunum þá þjónustu sem skilyrt er auk annarar þjónustu sem sveitarfélögin kjósa að veita. Einnig þarf að vera til fjármagn til að framkvæma eðlilegar endurbætur, hrinda í framkvæmd verkefnum sem stuðla að  styrkari byggð og efla rekstrarumhverfi fyrirtækja eins og kostur er hverju sinni.

Ársreikningar margra sveitarfélaga á landsbyggðinni sýna því miður ekki allt góða stöðu hvað fjárhagsafkomu varðar og hjá mörgum er það þannig að tímafrekustu verkefnin snúast um að láta enda ná saman og / eða hvar á draga úr þjónustu, hvar á að skera niður.   Flest þessara sveitarfélaga eru á landsbyggðinni og er sannanlega ekki eingöngu um Vestfirsk sveitarfélög að ræða.

Sveitarfélög sem eiga við rekstrarlega erfiðleika að stríða eiga enn erfiðara með að glíma við þá byggðaröskun sem víða herjar á. 

Skýringin á bágum ársreikningum sveitarfélaga er að miklu leyti vegna verkefnaflutninga frá ríki til sveitarfélaga þar sem ekki hefur fylgt nægt fjármagn með verkefnunum.  Auk  þess eru sveitarfélög að verða af útsvarstekjum íbúa sinna vegna mikillar fjölgunar einkahlutafélaga, en þær tekjur fara nú beint í ríkissjóð í formi fjármagnstekna.  Auk þess hefur fækkun íbúa víða á landsbyggðinni haft sitt að segja um lægri tekjur sveitarfélaga.

Þó svo staða margra sveitarfélaga sé slæm er það ekki algilt.  T.d. hefur Súðavíkurhreppur verið í hópi fárra sveitarfélaga á landsbyggðinni sem hefur skilað hagnaði sl. fjögur ár. 

Rekstrarniðurstöður Súðavíkurhrepps sl. fjögurra ára, af A og B hluta samstæðunar eftir fjármagsntekjur/gjöld og eftir afskriftir hafa verið:

Árið 2002  + 9.8 millj. - , Árið 2003  + 3.7 millj., Árið 2004  + 1,3 millj.,  Árið 2005  + 14,0 millj.

Hagnaður þessara 4 ára eru samtals 28,8 millj. sem verður að teljast nokkuð gott hjá sveitarfélagi sem er með um 120 millj. krónur í heildartekjur á ári.  

Þetta eru jákvæðar fréttir af fjárhag sveitarfélaga frá Vestfjörðum.   Ef greint er betur inn í rekstrartölur ársreikninga Súðavíkurhrepps sl. ára má sjá að það er ekki eiginlegur rekstur sveitarfélagsins sem hefur skilað þessum árangri heldur er það fjármagnstekjum að þakka þar sem eigið fé sveitafélagsins hefur verið nokkuð hátt og ávaxtað sig vel.  

Til að sem flest sveitarfélög séu vel í stakk búin til að takast á við framtíðina er það mjög mikilvægt að ríkið láti sveitarfélögunum í té vopn í baráttuni við svokallaða byggðaröskun, vopn sem er fólgið í leiðréttiningu á tekjustofnun sveitarfélaga. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband